Skip to content

Vesturland

Vesturland nær frá Botnsá í Hvalfirði að botni Gilsfjarðar. Inn til landsins eru mörkin eftir vatnaskilum, Þórisjökli og Langjökli. Þessi landshluti er margbreytilegur, sums staðar er hann þéttbýli, annars staðar strjálbýll, víða er gróið land, hraun á öðrum stöðum og jöklasýn víða. Á Vesturlandi eru margir þekktir sögustaðir. Suðurhlutinn er láglendur en norðan á Snæfellsnesi er víðast stutt milli fjalls og fjöru nema austast.

Test
Test

Vesturland skiptist í þrjú meginhéruð: Borgarfjörð, Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Dalasýslu. Borgarfjarðarhérað er annað mesta láglendi landsins. Akrafjall og Skarðsheiði eru há fjöll en ströndin er öll lág og fyrir landi eru sker og grynningar, einkum undan Mýrum, sem er láglendið norðan Borgarfjarðar. Víða er mýrlent og upp frá flatlendinu ganga margir grösugir dalir. Mestir þeirra eru Skorradalur, Lundarreykjadalur, Reykholtsdalur og Norðurárdalur.

Upp af innsveitum eru víðáttumikil heiðalönd: Holtavörðuheiði, Tvídægra og Arnarvatnsheiði. Skógar eru nokkrir en lágvaxnir. Kunnastir þeirra eru Vatnaskógur í Svínadal og Húsafellsskógur í Hálsasveit. Jarðhiti er mestur í Reykholtsdal og á Sturlureykjum var fyrst byrjað að nýta heitt vatn og gufu til húshitunar hér á landi árið 1908. Í dalnum er Deildartunguhver, vatnsmesti hver landsins og líklegast á jörðinni. Frá honum er heitt vatn leitt til Borgarness og Akraness. Afar fágæt burknategund, Skollakambur, vex við hverinn og er hún friðuð. Í Reykholti bjó Snorri Sturluson á fyrri hluta 13. aldar, einn þekktasti sagnfræðingur og rithöfundur Íslendinga.

Test

Ár eru margar í héraðinu. Þeirra helstar eru Hvítá, forn samgönguæð, Norðlingafljót, Þverá, Grímsá og Norðurá. Í Botnsá er Glymur, hæsti foss landsins. Stöðuvötn eru fjölmörg, Skorradalsvatn og Hreðavatn í byggð, Langavatn og Hítarvatn upp af Mýrum. Á Arnarvatnsheiði er fjöldi vatna, stærst þeirra er Arnarvatn stóra. Í Hallmundarhrauni eru Surtshellir og Víðgelmir, þekktustu hraunhellar á landinu.

Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla nær yfir Snæfellsnes vestan Hítarár og Gljúfurár á Skarðsströnd. Eftir nesinu gengur brattur fjallgarður og er hann hæstur yst. Þar er Snæfellsjökull (1446 m), tignarlegt og formfagurt eldfjall. Innarlega á Snæfellsnesi er fjallgarðurinn næstum skorinn sundur af Hnappadal. Faxaflóaströndin er láglend og lítt vogskorin. Sandar eru áberandi, lón og mikið útfiri. Vestan á nesinu er nokkurt undirlendi þakið hraunum. Undir Jökli var áður mikið útræði. Í Dritvík, á Djúpalónssandi og Gufuskálum eru merkar minjar um sjávarútveg og endurspeglast sú menning í söfnum á Snæfellsnesi. Mikið fuglalíf er á Arnarstapa og víða á Snæfellsnesi utanverðu. Inn með Breiðafirði er Snæfellsnes vogskorið og láglendi er aðeins við víkur og firði, einkum Grundarfjörð og Kolgrafafjörð.

Test